Ásdís galdranorn Jónsdóttir

Ekki er öll vitleysan eins!

föstudagur, janúar 31, 2003

Fjárans spánverjaskrattar, við sem áttum alveg endilega að vinna handboltaleikinn. ( Þetta er það leiðinlega við svona keppnir ) (ekki mjög spaklega mælt) Það rigndi svo svakalega í gærkvöldi og hvessti að það frussaðist inn um útidyrnar sem eru orðnar svolítið gamlar. svo lak þetta niður í bala á neðri hæðinni, hann er hálfur, en ekki dropi á gólfið af því ég uppgötvaði þetta strax. þessi rigning hætti nú fljótlega,( það er það góða við svona rigningar)...föstudagur....Úff.

miðvikudagur, janúar 29, 2003

Gott kvöld, Hemúlar múmín álfar og aððrir ættingjar og vinir, Elsku Uggla Sif, ef þú lest bloggið mitt, ...Er þér ljóst að ég gömul amma þín norður á Ströndum safna ugglum...merkileg tilviljun...Samkvæmt nýjustu hugleiðingum er drepleiðinlegasti söngvari sem ég heyri í í radíóinu tvímælalaust Rúni Júl. Óskaplega getur maðurinn verið slefulegur þegar hann syngur. ég hef aldrei heyrt neitt eins leiðinlegt og drafandi fyrirbæri. Þetta er nú neikvæði þátturinn. Ég var svona strax í morgun, fyrst var ég að hugsa um að fara alls ekki á fætur og fannst endilega að ég væri veik, svo uppgötvaði ég að það væri hrein og klár leti, og þeyttist framúr rúminu. Ef það væri hægt þá hefði ég örugglega farið vitlausu megin frammúr. En það er ekki hægt að fara það nema alltaf sömu leiðina, eftir mikla og erfiða leit að fötunum mínum og ennþá meira baks við að komast í þau reyndi ég að þvo mér um hausinn. en það tókst ekki af því ég gat ekki beygt mig, andskotinn hafi það. Þá var klukkan alveg að verða átta og ég rauk út, haldiði þá ekki að það hafi þurft að SKAFA, Ég inn og sótti afísingarbúnaðinn. Kom samt á réttum tíma í skólann. Það var ægilega gaman í tíma um lífsleikni, Tóti og allir krakkarnir sögðu draugasögur og sögur úr seinni heimsstyrjöldinni. Svo þegar ég var búin í skólanum fór ég og náði í meðul upp á heilsugæslu. Þar varð ég að punga út með 3200 kall. Niður í Hólmadrang og þar var aalveg rosaleg aafmælisveisla Lýður frændi átti afmæli, Og þvílíkar sælgætiskökur ég fékk mér ostaköku í matinn og rúgbrauð með smjöri og síld og eggjum. Dásamlegt. Nú svo var ég að drepast úr leti það sem eftir var dagsins, og er enn, nenni ekki einusinni að fara að hátta, Íslendingar unnu Pólverjana, ég þorði ekki að horfa á helminginn af leiknum, Þessir skrattar lömdu Patrik og hrintu hinum leikmönnunum gott á þá að tapa.he.he.
Þetta var á tímabili eins og hryllingsmynd. Jæja Er farin í bað og ætla að vera þar næsta klukkutímann.

sunnudagur, janúar 26, 2003

Mikið rosalega langar mig að þurfa ekki alltaf að vera að vinna til að borga skuldir, geta tekið sér frí til hreinlega að hangsa og liggja í heitum potti með augun aftur og góna upp í himininn og horfa á skýin þegar þau opnast, liggja og lesa og fara í gönguferðir, kaupa ny föt og dansa og djamma.
Er hætt að borða hvítt hveiti og sykur fram á páska... Hef ekki borðað konfekt síðan fyrir jól. Er ekki hætt neinu öðru.allttílæ,ókey blessbæ, Lukka.
Hó Hó, Afar einkennilegur sunnudagur að kvöldi kominn. Bíllinn minn gufaði upp eftir hádegið. Við athugun kom í ljós að það hafði verið skilinn eftir annar í staðinn. Ég fór á stúfana og viti menn Jón Gísli var að gera við hann, búinn að grafa sig niður í gírkassann og liðka þar einhvern titt sem hreyfist þegar maður setur í bakkið. Svo nú ætti að vera hægt að bakka þó það sé frost. Íslendingar unnu ekki leikinn í handboltanum í dag og ég tapaði veðmáli við Jón....... Í kvöld uppfærði Jón í tölvunni minni Microsoft internet explorerinn. og póstforritið mitt hvarf... Fannst þó aftur og nú er búið að rétta bloggið hans Jóns af svo ég geti lesið það strax.
Ég nenni alls ekki að vinna á morgun barasta alls ekki.... býst við að ég geri það samt.
Mest spilaði geisladiskurinn í dag: Leitin að Pílu pínu með Árdýzi.....
Kynþokkafyllsti karlmaðurinn: Patrekur Jóhannesson ekki spurning... Fallegastur.....Kröftugastur... karlmannlegastur og kynþokkafyllstur... Væri æðislegt að lenda í samstuði við hann, ( ekki kannske endilega í boltanum ). vildi að ég ætti plakat með honum í fullri stærð....Klukkan er hálf níu og ég er farin að sofa. Góða nótt.
Gleymdi... Uppáhalds söngkonan mín er Árdís B. Jónsdóttir

laugardagur, janúar 25, 2003

Spurningalisti: Hvert er uppáhalds skáldið mitt:útlent .. Margit Söderholm, Margit Sandemo, Astrid Lindgren og Enid Blyton.
Íslenskt: Einar Már, Stefán Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Guðmundur Hagalín, Halldór Kiljan, Jón Trausti.
Ljóðskáld Íslensk: Jóhannes úr Kötlum, Stefán frá Hvítadal og Tómas Guðmundsson.
Uppáhaldslög Íslensk: Óteljandi: Blindsker með Bubba M...Ég bíð þín undir bláum mána m / Bjögga.... Eina nótt sem Ríó hefur sungið m.a.....Lánið er valt með Þorvaldi halldórssyni... Góða ferð með B.G og Ingibjörgu, Öll lögin sem M.A. kvartettinn söng með textum eftir Jón frá Ljárskógum. Sestu hérna hjá mér ástin mín, Við gengum tvö, o.s.frv. o.s.frv.
Útlend: Blue Christmas.... Nothing else matters.(Metallica)... Help me make it trough the night.(ýmsir flytjendur)... How´s the world treating you með Jim Reeves..... God night Irene, o.fl o.fl .
Þá hefur nú fröken Lukka yfirhöndina, hún er snarklikkuð, Fara út að labba.. Strax.. Borða hollan morgunverð, áður. Vera virkilega smart á göngunni (ég þyrfti að vera á stultum) til að vera ekki eins og varða á göngu.... Grennast einhver lifandis ósköp á göngunni.
Koma heim og fá sér vatnssopa af því vatn er svo hollt og fólk á að drakka ákveðið magn af vatni til að hreinsa líkamann af óhollum vessum. Það og gangan til samans eiga líka að hressa sálina og gefa innri ró, Sjá fegurð náttúrunnar og þakka fyrir að geta skrönglast á lappir á morgnana, og komist í sokkana. Síðan útbýr maður hollan hádegismat samkvæmt ráðleggingum manneldisráðs, (ég hata manneldisráð) en það hefur andstyggilega rétt fyrir sér. Best að lofa tíkinni að hafa yfirhöndina, Ég ætla að labba út á bátabryggju.....
Góða helgi, segir fólk í dag. Í gær var bóndadagur og kerlingar kepptust um að gefa körlunum sínum blóm,og baka fyrir þá og elda allskyns góðgæti. Vonandi að þeir hafi endurgoldið það með því að vera góðir við þær. Sumir karlar gefa samt skít í allt þetta vesen. Sem er í rauninni alls ekkert vesen , Og mín skoðun er sú að sjálfsagt sé að grípa öll tækifæri til tilbreytni og hafa gaman af þeim. Þetta ætti að minnsta kosti ekki að skaða neinn. Nóg um það. Íslendingar unnu síðasta landsleikinn í handbolta, og svo keppa þeir í dag líka, ég ætla að fara upp í skóla að horfa á hann með Adda, Jóni og fullt af öðru fólki.
Það er miklu betra heldur en að krókna úr kulda alein meðan leikurinn stendur yfir, hérna í mini stofunni minni, af því að ég hef trassað og sífellt slegið því á frest að kaupa ofn, og er svo alltaf minnt illilega á þetta þegar er vindur og frost og ég er að bögglast við að horfa á sjónvarpið, eins og hemúll í lopateppi.lopasokkum og með lambhúshettu og vettlinga. Þetta síðasta er nú reyndar orðum aukið.... Vonandi verður þetta skemmtileg helgi, alltaf ætlast maður nú til þess,og helst að skemmtiatriðin komi fljúgandi óvænt upp í fangið á manni. Að mér læðist sú fróma ósk að ég sæti með Árdísi á Kettinum Gráa að fá mér morgunkaffi. Én hvað ætli séu miklar líkur Tölfræðilega séð að ég hitti á óskastund..... Allavega myndi mér bregða í brún....

miðvikudagur, janúar 22, 2003

Skítakuldi og ósómi annars allt í sómanum.

þriðjudagur, janúar 21, 2003

Hvað er hér á ferðinni..Jón Jónsson .haha. Á póstinum mínum stendur að pósthólfið sé fullt. hvernig í andsk... fer ég að því? hringi í J.J. þessvegna uppfærist bloggið mitt ekki..
Ég var að koma frá Broddanesskóla , búin að vera nærri tvo tíma á leiðinni því veðrið var svo brjálað alveg blindbylur.. í kring um Kollafjörðinn og framhjá Þorpum og niður Smáhamrahálsinn. þar fóru flutningabílarnir framhjá mér. Kaupfélags og Strandafragtin, hann flautaði og mér fannst það verulega vingjarnlegt. Svo var veðrið nokkuð skikkanlegt eftir það. Ég er alveg svakalega fegin að vera komin heim á norðurpólinn. Fundurinn var ágætur. Sigga var með allskyns góðgæti með kaffinu eins og hennar var von og vísa.
Það eru áramótalög, nú er glatt í hverjum hól, á rás eitt. góða nótt.
haha
Góðan daginn grýla mín... Mánudagsmorgunn á fætur ég fer.. höfuðið á mér o.s.frv. Mig dreymdi gamalt hús með gati. Hvað ætli það þýði. það var vatn á gólfinu sem ég var að ösla í. Upp í skóla. Svo fór ég til læknisins, sem lét Sólrúnu taka tvær myndir af hendinni á mér, hélt kannske að það hefði brotnað svokallað bátsbein (schapoideum). það virtist nú vera í lagi. Niður í Hólmadrang þar voru tvö afmæli í gangi Jóna og afi Halli..... Munur eða þessir hundleiðinlegu sunnudagsmorgnar. Það er reyndar hálfgerður bylur. Ég hringdi í Siggu Siggu og frestaði Sævangsþorrafundinum til morguns. Ég held að hún sé farin að hafa áhyggjur af þessu. En ég var aldeilis fegin í kvöld því það var leiðinda kafald. Ég fór á borgarafundinn um sveitarmálefnin, það var rætt um framkvæmdir hreppsins, og sundlaugina.. Mér finnst algjört heilsuspursmál fyrir fólkið að fá sundlaug...Og heim er ég komin og halla mér á koddann minn og vænti þess að mig dreymi afar afar vel mmmmmm.

sunnudagur, janúar 19, 2003

Áfram sunnudagur ,,, Fýlan viðraðist af mér um tíuleytið, þá var ég búin að hengja upp glás af þvotti, þvo meira og þvo upp, eldhúsið tók þvílíkum stakkaskiptum.... mátti það líka alveg. Sendi myndir til Hönzku með Svanhildi og börnunum. Við Nonni fórum upp á sjúkrahús og heimsóttum níræðar mæður okkar og náðum í sjónvarpið hans Simma og eitt borð. Ragnheiður vinkona mín bauð mér í afmæliskaffi Lýðs sem á afmæli á miðvikudaginn. Líni var þar, mér finnst svo gaman að tala við hann , hann er svo gamall og vitur. Eftir að hafa borðað yfir mig af allskonar góðgæti fór ég heim í Steinó. Þegar ég var að tosast með sjónvarpið inn í Lyngási klesstist hendin á mér utan í dyrastafinn og kramdist pínulítið. Það er reyndar fjandi vont og kúla á handarbakinu á mér. Ég færði skápinn á ganginum inn í stofu og gerði fínt þar og tók saman jólatréð. Gústi tók ekki eftir því að neitt hefði breytst meðan hann var í fjárhúsunum. Þetta er samt fínt.
Ég hitti Jón Gísla í dag og hann sagði að ef sett væri grobbsía á bloggið hans Jóns myndi það hverfa. Jón heldur að það sé af því að hann minntist á að það séu 13 herbergi hjá þeim (þau eru reyndar 16), og þetta sé öfund hjá Jóni Gísla... Farin í froðubað og síðan upp í rúm með bók. Góða nótt.
(góðan daginn) Ég skil ekki af hverju sunnudagsmorgnar eru svo viðbjóðslega leiðinlegir...getur það verið af því þá er ekkert fyrirliggjandi annað en að gera það sem maður hefur ekki nennt að gera daginn áður. Kannske vantar kaffihús eins og Gráa köttinn sem við Árdís förum í morgunkaffi á þegar ég er í bænum. Það opnar kl. 7. og maður skverar sig upp, fer á Köttinn og safnar orku yfir kaffi latte, nýbakaðri ljúffengri brauðbollu, túnfisksalati, kaffispjalli og mogganum, og kemur svo endurnærð og til í daginn. Kannske er það kaffispjallið sem vantar.. ræða áramótaheitin og fleira.. frá og með þessum degi er ég steinhætt að borða annan kvöldmat en eitt epli eina appelsínu eða einhvert fjandans grænmetissull.. hugguleg hugsun og framkvæmd.. gildir fram að þorrablóti í Sævangi til prufu. Nú ætla ég að fara og hengja upp allan fjárans þvottinn sem þvottavélin mín þvoði í gær. Þar næsta verkefni er að taka til í eldhúsinu og fá mér te... Það er einhver að syngja Tears go by í útvarpinu mér hefur alltaf fundist það flott lag. Sunnudagsmorgnar eiga það reyndar til að lagast um tíuleytið. Ég svaf í sokk á hægri löppinni til að þurfa ekki að fara í hann í morgun.. það vakti mér ómælda gremju að sjá þennan fjandans sokk þegar ég vaknaði.... ógeðslegt.. Kannske ég ætti að fara í bað í honum. Ég þarf að láta Jón kenna mér að skrifa ljóð í bloggið án .þess að það komi allt í belg og biðu, meira síðar ( ég nenni ekki að moka tröppurnar) Það hélt ég nú að ætti ekki eftir að koma fyrir mig.

laugardagur, janúar 18, 2003

Hæ Grýla Þetta Tomsen er bara alls ekki þjóðlegt... nema það sé síðan Danir réðu ríkjum á Íslandi....
Það sem er á döfinni nú eru þorrablót..... Ógeðsleg tilhugsun..... Ég er greinilega að verða útúrborulegt forpokað fyrirbæri...
Minn skemmtanasjúki helmingur...Fröken Lukka er alveg í skýjunum....en ekki ég. Ég skráði mig á lista þegar Þorbjörg kom með hann, og dauðsé eftir því... Ætla að láta hana vita strax á mánudaginn að ég ætli ekki. ...
.. ég bara nenni þessu ekki.. ég tími því ekki heldur.. það er nú sennilega aðal ástæðan.. Áramótaheitið mitt er að verða regluleg Spardís og eyða ekki neinu og borga skuldir í gríð og erg.
Og til að kóróna allt saman er ég kosin í þorranefnd í Kollafirði, með Sigga í Stóra, Jónsa Stef, Unni og Siggu Siggu, og á að fara út í Broddanesskóla á fund á mánudagskvöldið.
Ég ætla reyndar að fara á það þorrablót og þá er sparnaður að því að vera í nefnd... ojá og jamm.
Heimsótti mömmu á nýja sjúkrahúsið, þar er svaka flott, hún var í nýju borðstofunni að prjóna.
Hrafnhildur mín og Jón Örn komu í heimsókn í dag. Og ég fór á íþróttahátíð hjá skólanum í morgun og tók þrjú nudd eftir hádegið.
Tók til á skrifstofunni, og heimsótti Möggu og Guja. Þvoði fimm þvottavélar og fór með kassann hennar Ragnheiðar til hennar.
Ég vildi að ég gæti hangið vakandi á kvöldin en það gengur illa, ætli sé ekki til eitthvert töfralyf við því, það er alveg út í hött að lognast útaf á miðjum kvöldum ef ekkert er að gera, ferlega hallærislegt. Góða nótt. = ég er á leiðinni upp í rúm með bók.

þriðjudagur, janúar 14, 2003

Hæ Grýla Tomsen Nú er kominn 17. jan. snjór úti og annríki mikið. Lukka lætur ekki á sér kræla. Ég er hætt að velta mér upp úr gömlu vinnubrögðunum.
Mér finnst samt alveg hræðilegt að ekki skuli vera lengra síðan þetta var.....en af hverju ætti mér nú ekki að vera sama um það....
Ég lenti í einni æstri konu í dag út af því að mér finnst gaman að horfa á Leiðarljós. Merkilegt hvað fólk umturnast út af þessum þætti. Flestir fara nú í bíó til að horfa
á allskonar froðukenndar myndir.
Einhvernvegin skildist mér að það væri þar að auki að hennar mati ekkert sem hægt væri að horfa á í ríkissjónvarpinu, ekki nógu fínt að horfa á það.
Ennfremur að það væri lágkúrulegra að horfa á Leiðarljós en t.d. Nágranna og Glæstar vonir.
Mér dettur líka í hug að fólk sé að pukrast með að það horfi á þennan þátt.. Ja, ja ,, Ég er að hugsa um að skrá niður athugasemdir sem koma fram þegar minnst er á þennan frábæra þriggja kortera þátt.
Fór út að Kirkjubóli í kvöld þegar ég var búin að nudda, og sá flotta litla herbergið sem Ester er búin að gera fyrir Jón Val.
Jón var að sýna mér vefsíðu leikfélagsins sem er stórskemmtileg,. og vefsíðu sauðfjársetursins sem er líka flott, fullt af myndum og upplýsingum,
og áætlun næsta sumars.
Addi Hildur og herra Brynjar Freyr ætla að fara til Reykjavíkur á morgun. Ég á að sjá um Þorvald Tuliníus í krukkunni á meðan. Hann gapir alltaf framan í mig þegar hann sér mig.
Jæja nú hættir dagur þessi að vera lengi að líða .... Það var allt í lagi með Árdísi , sýnið sýndi að það var ekki illkynjað, hún er komin heim af sjúkrahúsinu og ætlar í vinnuna á morgun. mér líður undarlega .. eins og ég sé ekki með öllum mjalla.. Mig langar að öskra og faðma fólk...Þá hef ég líklega búist við því versta.
Algjör áhyggjutuðra alltaf........... ÍÍÍÍ´´IÍÍÍÍhaaaaaa Takk guð. ......... Og hugsið ykkur. Í endurminningum Matthíasar frá Kaldrananesi stendur: Þegar tún voru unnin ,svokallaðar þaksléttur voru ekki notuð hestaverkfæri heldur voru flögin stungin upp með skóflu þegar rist hafði verið ofan af, hnausarnir svo barðir sundur og sléttað yfir.... Áburðurinn reiddur á völl í kláfum Kvenfólk látið lemja áburðinn ofan í völlinn með klárum ógeðslegt
Já það er nú meira hvað þessi dagur hefur verið eitthvað lengi að líða , hann hefur vægast sagt silast áfram. Venjulega eru þeir svo fljótir að líða að maður er varla komin á fætur þegar er kominn háttatími og tími til að rífa sig úr fötunum aftur og fara að sofa. Ég þorði ekki að hringja í Árdísi kl 11 en prófaði kl hálf tvö og hálf þrjú og þá svaraði hún ekki. Ég var að lesa endurminningabók þar sem talað er um gömul vinnubrögð og þar stendur um vegavinnu: Áhöldin sem notuð voru voru skóflur gafflar og járnkarlar Ofaníburði var mokað upp í veginn þar sem næst að til náðist, annars varð að bera hann á handbörum eða jafnvel á bakinu í pokum. hugsa sér , og þetta var bara 194og eitthvað.

mánudagur, janúar 13, 2003

Það er nú meira

sunnudagur, janúar 12, 2003

Aldrei ætti maður að vera að lofa neinu. Hvað snerti annálsritara vikunnar þá sofnaði hann ( hún ) áður en tækist að skrifa einn bókstaf. Enn er nú eldhress og til í tuskið að undanteknum þessum endurteknu erfiðleikum við að komast í sokk á hægri fótinn, en það hafðist fyrir rest. Ein vinkona mín ráðlagði mér að vera bara berfætt..... aldrei í lífinu....annars er ég nú með bara þokkalega flottar tær (þær eru að vísu loðnar, svarthærðar) ,,,og hef gaman af að lakka á mér táneglurnar. ( myndi kannske naga þær ef ég væri ekki svona asnaleg öðru megin í bakinu).
Sjúkraþjálfun ??? If I were a rich man abadabadabadabadabadabadamm. Nóg um það.
Fréttir vikunnar eru þær að ég byrjaði í ´splunkunýrri vinnu. Stuðningngsfulltrúi í skólanum. það líst mér afar vel á . Tilbreytni í störfum með góðu fólki og alltaf er gaman að reyna eitthvað nýtt. Er í því frá átta til ellefu á morgnana, og fer svo í Hólmadrang frá hálf tólf til hálf fimm á daginn. Horfa á sjónvarpið í þrjú korter, Guiding light. Nudd á kvöldin. Mér ætti ekki að leiðast.
Í gærkvöldi buðu Hildur og Addi mér í dýrindis kjötsúpu, Hún var svo góð að á eftir vorum við alveg dösuð af áti. dásamlegt.
Svo er eftir að vita hvað gerist í dag.

laugardagur, janúar 11, 2003

Jamm og jæja og góðan dag. Árdís er búin að skíra dagbókina sína og þá verð ég að gera það líka. Lukka vill endilega láta hana heita Tótu...Ekki veit ég af hverju..En mér datt í hug að hún gæti heitið einhverju afar þjóðlegu nafni. t.d Grýla...Sæl Grýla mín hvernig hljómar það ? Grýla er ekki verra nafn en hvað annað.. Hugsið ykkur Dudda og Diddú..Eða sem seinna nafn, Sigríður Grýla Jónsdóttir eða Ingibjörg Grýla Einhversdóttir, Grýla Tomsen....Málinu frestað.
Vikan hefur verið svo annasöm að ég hef ekkert skrifað síðan á sunnudag en í kvöld kemur annáll vikunnar því lofa ég.

sunnudagur, janúar 05, 2003

Elsku Illugaskotta mín Kauptu Broddadalsá þar eru sko allar tegundir af landslagi fyrir þig að klifrast um, reki , fjöll. urð og grjót, Hafið útifyrir til að synda í. Friður og ró til að skrifa bækur, og vinna að fræðiverkefnum. samt er þetta of langt frá Hólmavík. verst að þú skyldir ekki ná tangarhaldi á Hvalsá.
Góðan daginn: Sama góða veðrið. Lukka er í einhverju svakalegu framkvæmdastuði.. Gera allt mögulegt í dag af því að það er sunnudagur. Hún er ótrúleg. Það er nú eftir að vita hvort hún kemur einhverju í verk sem vit er í. Sparnaðaráætlun...... Framkvæmdaáætlun.... Fyrirtækjastofnun....Nýjársheit.....Smíða pínulítið og færa til myndir á veggjunum.. Þetta með nýársheitin púff... Verður maður ekki endilega að hætta einhverju... og hverju þá... ég veit bara ekki um nokkurn skapaðan hlut sem mér finnst ég geta hætt... Hætt að fara ekki út að labba, hvernig væri það? Það er ekki hægt að ákveða að gera eitthvað. Safna peningum og borga rafmagnsreikninginn. Góð hugmynd.
Eða loka rafmagninu og hita upp með gasi og elda á prímus. Fröken Lukka Slappaðu af !!!
Gærdagurinn var bráðskemmtilegur. Bifreiðin mín sá eldgamli eðalvagn ekinn um 400.000 km á vél. í skveringu á verkstæðinu hjá Sverri V. Farþegahliðin fékk heldur betur andlitslyftingu og ég snerist í kring um aðgerðina og þóttist vera að aðstoða. Lukka sá strax fyrir sér hringferð um landið á bílnum. Jón Gísli kom og þarna stóðu þeir og hristu hausana yfir röð af ( pínulitlum ) götum á bílstjórahliðinni. frekari aðgerð verður þegar ég hef útvegað smá trefjar og efni.
Aðalbjörn Tryggva og hún Árdís mín komu úr Reykjavík um miðjan daginn með vatnsdælu í jeppann hans Tryggva..... Sjá Ardýz Blogger. Jón Gísli skveraði dælunni í og þau lögðu af stað suður aftur Árdís ryksugaði JónsGísla og Brynju bílinn skellti á hann bensíni og skilaði honum, ég bakaði rúsínulausa en góða ástarpunga í nestið fyrir þau.Í gærkvöldi buðu Addi og Hildur mér í kvöldmat, í hádeginu borðaði ég hjá Ragnheiði, fór svo eftir kvöldmatinn í afmælisveislu Ágústu Höllu tveggja ára. hjá möggu og Guja.
Allt þetta hreinasta sælgæti.....Kannske væri ráð að tengja nýjársheitin að einhverjuleyti mat........ Ókey bless bæ

föstudagur, janúar 03, 2003

Hó Hó. Hugsið ykkur ef allir væru með skott. Það væri nú meira stússið og pjattið í kring um þau.´´ Mikið ert þú með sætt skott o.s.frv. Mismunandi litir og lengdir... t.d Kona með sérstaklega langt og loðið skott. Veifar því tignarlega.. Lögregluþjónar með svört gljáandi skott...´´ Flott þetta grábröndótta skott á honum Kristjáni o.s.frv.
Eða´´ Það er nú hálf tuskulegt skottið á henni Stellu... Hvaða sjampó ætli hún noti... sérðu hvernig hún vingsar því þegar hún mætir honum Sigga.. Og þannig í það óendanlega.. NÚ verð ég að þjóta í vinnuna.....................

fimmtudagur, janúar 02, 2003

Aggaggagg Þá er nú árið 2002 liðið í aldanna skaut, og 2003 komið í staðinn.
Þau undur og stómerki hafa gerst að ökklinn á mér sem eg er búin að vera að drepast í síðan ég sneri uppá hann í sumar úti á setri. er kominn í lag.
Ég fór til þessa afbragðs læknis sem hér er á gamlaársdag. og hann setti bara upp dæmi, eins og þegar maður fer með bíl í viðgerð
á verkstæði K.S á Sauðárkróki.Þrír möguleikar, og ég valdi sprautu í vöðvafestu. Batnað .Bingó.
Og ég sem er búin að skriflast áfram eins og hölt hæna er nú sem óðast að æfa upp venjulegt göngulag... dásamlegt...
Hanna Sigga er búin að fara hér um með regnbogaþotuna eins og hvítur stormsveipur. Húsið ilmar og bíllinn minn er steinhissa.
Ég skellti henni á snyrti og nuddstofuna mína í staðinn. klipping nudd og fót og handsnyrting.
Árdís og Addi Tryggva komu á mánudagskvöldið 29. þau gistu hjá Adda og Hildi, Addi T. gaf mér rúmið sem hann var áður búinn að lána mér.
Síðan erum við búin að heimsækjast, spila, borða góðan mat og fara í gamlaárskvölds veislu heima í Steinó með tilheyrandi flottri brennu og flugeldum.
Jón Ester og börnin voru samt ekki því þau fóru á Siglufjörð til afa og ömmu þar. og Hadda fjölskyldan okkar var ekki heldur þau voru að undirbúa
afmælisveisluna hans Jóns Arnar og svo fóru allir í hana í gærkvöldi. Dísa hélt að maður yrði lengi að trappa sig niður eftir allt þetta át.
Í morgun lögðu svo HannaSigga, Addi T, Árdís og Tómas Andri af stað suður á Jóns Gísla bíl, því vatnsdælan bilaði í jeppanum sem þau voru á.
Og hefst nú hversdagsleikinn á ný, vinna kl 11-30. Og þó..... Alltaf vonandi einhver ævintýr...... Vonum það besta !!!!!!!!!!!!!!!!