Ásdís galdranorn Jónsdóttir

Ekki er öll vitleysan eins!

miðvikudagur, janúar 28, 2009

Nýtt lag fæddist í morgun Það er frekar gamaldags fjörugur vals sem kemur af stað þeim eilífa fótafiðringi að langa til að dansa eftir honum.
Textinn verður um sólskin og (snjó).... . eða tunglskin....halastjörnur og dansandi norðurljós (Kvennakórinn) hmmm.... kannske smá rómantík (eða kannske ætti ég að hafa pólitík) eða erótík, eða bara venjulega hundtík....
Ég heyrði í gær svo glimrandi nafn á kvennakór sem myndi allsstaðar slá í gegn út af nafninu.
Sama góða veðrið , Nú ætla ég að fara á kreik og sýna Jóni Gísla varahlutina sem ég keypti í Mosó hjá Jamil og Báru. þau eiga alveg dásamlega tík sem heitir Stella hún er siberian hösky ..held það sé skrifað svoleiðis... Fór með Bakkus á þvottastöðina Löður þar sem loftnetið þvoðist af honum.

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Nú er fjör, Reykjavíkurför í sólskininu, gott að komast aðeins úr landi.

sunnudagur, janúar 25, 2009

Já nú er fjör.. Kynning á plástrum á Cafe riis í dag sem maður sá auglýsingu um eftir á
Svona sauðir eins og ég eiga alls ekki tilverurétt tók ekki eftir auglýsingunni fyrr en of seint og plástrarnir ku geta læknað nánast alla kvilla.... hugsa sér maður getur sofið , farið á skíði, losnað við bólur og húðþurrk og umframkílóin og guð má vita hvað annað. Þetta er semsagt allra meina bót, og ég aumingjansdruslan missti af kynningunni. það er ekki endir á vandræðaganginum, Jón Gísli minn skipti um leguna í afturhjóli bifreiðainnar minnar, og eins og ég væri ekki búin að finna á mér að það væri ekki nóg þá fann hann ónýta bremsudælu, og ég sem þarf að hendast suður á þriðjudagsmorguninn og til baka sama dag for helvede, það er alveg sama í hverju er klúður, klúður, klúður, kannske hefði verið hægt að plástra dæluna ef ég hefði komist á kynninguna, ekki er hægt að fara á hjólalausum bíl, svo eru göt á bensín eitthvað... sem bensínið lekur út um já (aðrennslisgöngin) og yfirfallið í
tankinn, og þar með fyllist tankurinn af drullu og vatni og veldur eilífðarvandræðum ef ekki verður skipt um þetta hið allra snarasta, Segir Jón Gísli ..og ég sem er búin að láta þetta danka heillengi og setja bara pínkupons af bensíni í hvert skipti til að það leki ekki út um þessi fokking göt. Ég ætla ekki að minnast hér á smurolíuskort nema takmarkað það er nú kreppa, en þessir toyota bílar eru alveg ótrúlegir.......ganga svotil endalaust án þess að bræða úr sér. nú eru semsagt góð ráð dýr eiginlega rándýr.
og ég sem er búin að vera í bensínsparnaðarátaki og hef ekki farið lengra en út í káesshá í háa herrans tíð. líka af því afturhjólið er búið að skrölta með biluðu leguna síðan á gamlaársdag, það hefði ekki verið skynsamlegt að fara í lengri ferðalög. og þar sem skynsemi er ekki mín sterkasta hlið þá hef ég verið ægilega ánægð með þetta átak í aðra röndina en það hefur verið afar viðbjóðslega leiðinlegt samt í hina.
Það er líka margsannað að það eru tvær hliðar á öllum málum eða jafnvel fleiri.
Þarna er ég búin að lesa síðan í gær alveg hnausþykka ástarsögu um vampýrur. verulega spennandi og heitir Ljósaskipti og er á stærð og þykkt við meðal biblíu. Ég er ekki alveg sátt við það hvað eg er fljót með allt það lesefni sem ég sæki mér á bókasafnið en það truflar mig nú ekkert við þessa iðju og ég gleypi í mig hverja bókina á fætur annarri dag og nótt eins og ég sé í akkorði. Það er alveg æðislegt hvað fólk er duglegt að skrifa fyrir mann. Alveg dræpist ég í skammdeginu og fram í mars ef væri ekki þetta jólabókaflóð, það er búið að redda geðheilsunni í mörg herrans ár, reyndar öll ár allt árið,en sérstaklega yfir þessa vetrarmánuði. Svo er þá bara að finna gamlar bækur þegar hinar eru upplesnar. Allt skal lesið ...eða mestallt... Ævisögur Ástarsögur fróðleiksbækur lygasögur og sannar, Sorglegar og hlægilegar, Ljóð og leikrit, takk fyrir. Fyndnasta sagan sem ég hef þó lesið núna er um að eiga og elska heimsins versta hund. og heitir: Ég og Marley.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Það er kominn tími til að líta á björtu hliðarnar það er svo margt sem ber að þakka fyrir, td heilbrigði fólks og tækifæri sem fólk hefur til að líða vel, Samt kann maður ekki að meta það sem er gott eins og að eiga þak yfir höfuðið og eitthvað að éta, við höfum allskonar hluti sem við hugsum ekki um vegna þess að þeir þykja svo sjálfsagðir, en það er ekkert langt síðan við höfðum ekki t.d. sjónvarp sem þýðir bíó á hverjum degi og sumir geta valið um margar stöðvar, útvarp og tölvur og gsm síma sem maður sleppir ekki eitt augnablik og verður vitlaus ef þau virka ekki. Rafmagn og allt sem því fylgir var óvíða í sveitunum fyrir ekki löngu síðan, allskonar heimilistæki, upphitun og ljósadýrð í öllum hugsanlegum myndum. Föt eins og hver vill. Baðherbergi og klósett, góð rúm og húsgögn, og ekki síst samgöngutæki af öllum stærðum og gerðum Litlir bílar og flutningabílar, skrautlegir jeppar, hjól, og sleðar,
Tónlist til að hlusta á og milljón smá gleðigjafar. Svona er þetta hér á Íslandi. Hér gæti verið og er gott að eiga heima. En nú þarf að klóra í bakkann til að bjarga því sem bjargað verður og hefði verið hægt að nota í svo mikla uppbyggingu og hagræðingu ef íslendingar hefðu getað haldið sig við sitt eigið land. Af því það það er búið að klúðra svo miklu með flottræfilshætti og fjármálaspillingu, þar sem bankamenn hafa leyft sér að stela fé almennings og bruðla með út um lönd á óheyrilegan máta. Og alltaf eru að koma upp ný og ný viðbjóðspeninga mál.
Jæja ég er komin út úr efninu og er kannske eins óskiljanleg og þegar við Guðfinnur í Miðhúsum vorum að ræða saman um lífið og tilveruna í gamla daga.
En það er svo fljótgert að klúðra tilverunni í öllu smáu sem stóru. Svo grey útrásarvíkingarnir mikið held ég þeim líði illa.

mánudagur, janúar 19, 2009

Það er aldeilis fínt veðrið í dag ég hunzkaðist út og er búin að rölta einn og hálfan klukkutíma út á vegamót og til baka. sólskin oþh. Ég hefði nú samt átt að vera að gera eitthvað annað frekar er það ekki.
kláraði eina spennusögu eftir Birgittu Halldórsdóttur í morgun og byrjaði á annarri.

föstudagur, janúar 16, 2009

Djöfull fer í taugarnar á mér allt kjaftæði um að fólk sé fífl og asnar, auðvitað erum við öll meir og minna fífl og asnar en það sem pirrar mig er þegar er ekki hægt að láta skoðanir sínar í ljós við fólk án þess að vera alltaf að setja sig á háan hest. Allt í lagi að hafa skoðanir og tjá þær en að það þurfi endilega að drulla yfir hausana á einhverjum persónum í leiðinni er bölvaður dónaskapur. Og reyndar ætti ég ekkert að vera að fá mér þetta til, það er ekki til annars en að gera mann leiðan, og lýsir bara persónuleika þeirra sem ausa.
Mig skortir talsvert á að vera með góða dómgreind og geri mistök, en ég sé ekki að það gefi mér neinn rétt til að kalla annað fólk bjána.
Mér þykir í flestum tilfellum frekar vænt um fólk en ég held að pólitík hafi ekki þau góðu áhrif sem henni er ætlað að hafa. Og sé oft og iðulega dragbítur á annars góðar áætlanir og málefni, það er þrasað um og skítkastað í stað þess að tala um og sameinast um það sem máli skiptir.

miðvikudagur, janúar 14, 2009

það er kreppa.
Það er blankalogn úti og stirnir á snjóinn. Ég prjónaði tvenna vettlinga í gær alveg hrikalega hlýja og góða. Annars gerist mest lítið. Ég er oft að huxa um konu sem var ein á eyju heilan vetur sambandslaus við umheiminn, hún fraus held ég inni svo enginn komst þangað, og sagan hennar var miðdegissaga eitt sumar þegar ég var í heyskap og hafði þann starfa að jafna heyið í heygryfjunni og hafði með mér útvarp, , ég vildi að ég myndi hvað þessi saga heitir mig langar svo að lesa hana . Ef einhver veit !!! láta mig vita takk... þetta var svo skemmtileg og alveg einstaklega góð frásögn.
Ég veit ekki ..sennilega hefur hún ekki haft útvarp hjá sér ég man ekki til að minnst væri á það. Ósköp fannst mér nú sjálfsagt að ég hefði hjá mér útvarp í gryfjunni þó það teljist kannske ekki sérstök lífsgæði í dag , en það er nú svo eins og með mörg önnur þægindi fólk hættir að taka eftir þeim finnst þau sjálfsögð nema þau hverfi.
Þá verður manni hugsað um þetta vesalings fólk úti í heimi sem býr í húsarústum og veit ekki hvenær næsta sprengja kemur.
Mér fannst mjög slæmt að horfa á í sjónvarpinu í gær allar kastalabyggingarnar sem átti að gera til að bæta Reykjavík, Tónleikahöllina og miðbæjarkjarnann og allt hitt.
Þetta er bara alveg ómögulegt og allt í klúðri. Ég held að aldrei verði hægt að laga neitt af þessu klúðri. semsagt nú hlær skrattinn hátt og ógeðslega.
Reyna samt að gera gott úr því sem fyrir hendi er allir að leggja sitt af mörkum.
Peningana segja forráðamenn þjóðarinnar að alþýðan eigi að spara og leggja inn eiithvað í hverjum mánuði. Mér er spurn ,Hvaða helvítis peninga eru þessi fífl að tala
um. fólk hefur ekki einu sinni fyrir mat.... Og ekki er nú vænlegt ef einhver gæti nurlað einhverju saman að fara að setja það í banka. nei nú er komið svo að fólk grefur klinkið sitt bara í jörð í litlum krukkum eða felur þær undir rúmi osfrv. ..Nóg komið af bulli um peninga sem ekki eru til.....

sunnudagur, janúar 11, 2009

Nú er vetur í fyrsta skipti í langan tíma svona ekta ..kalt og dálítill skafrenningur og norðan átt annars ekkert hvasst, ekki vont veður en mig langar ekki beint að vera úti.
Lukkudýrið er innipúki á sunnudögum.
Svo er sunnudagsmorgunn og þeir geta verið ótrúlega leiðinlegir, enginn á ferð á götunum , fólk er að sofa lengi og slökkt í gluggum húsa, einhverjir búnir að slökkva á ljósaseríum jólanna, og það er einhvernveginn eitthvað í sambandi við þessa sunnudagsmorgna sem kemur mér til að finnast að ég ætti endilega að hafa einhvern til að tala við annan en hundleiðinlega sjálfa mig, Þetta hefur reyndar alla tíð verið svona hvað mig snertir... þessi sunnudagsmorgnafýla.
Mánudagarnir eru bestir allt í gang ,spennandi að fara á fætur, og allir á fleygiferð fara í skólana ,vinnuna, verslanir opnar, þar hitti ég fólk, Fer að vinna í einhverju skemmtilegu og þannig.
Ég hef aldrei hitt neinn sem finnst þetta líka..Þe.e.a.s. að sunnudagar séu gjörsamlega tilgangslausir eins og mér finnst.... nema maður geti farið eitthvað....á skíði ,í pikknikk, fjallgöngu eða fjöruferð eða bara farið eitthvað...helst með nesti....
Nú er næst að fá sér bleksterkt expressokaffi og raða svo jóladóti ofan í plastkassa með loki...

föstudagur, janúar 09, 2009

Vaknaði í morgun.... alltíeinu klár og hress kl 9 við eitthvert..."Ertekki vöknuð" frammi í gangi. Ég "jújújú fyrir löngu... svo seig að ljúga ,sérstaklega á morgnana....Reif mig í föt og settist að kaffisumbli með Dúnu sem var að koma með skaupið fyrir mig til að sjá það í nýju ljósi....Skýring: Þetta síðastliðna gamlaárskvöld er það fyrsta á margra ára tímabili sem ég hef ekki sofið eins og örþreytt fyrirbæri yfir því. EN
svo sá ég part af því á breiðtjaldinu hjá Hönnzku og Bigga og úppgötvaði mér til hrellingar að ég kannaðist ekkert við innihald þess nema örfáa punkta, skelfing hef ég endað árið 2008 eitthvað annars (eða þriðja) hugar . Hvað um það Dúna hafði tekið þetta upp og reddaði málinu.
Síðan er ég búin að taka niður útiljósaseríurnar og ætla að gera margt fleira sem ég hef ekki gert ennþá.....Dagurinn er nú ekki búinn....

fimmtudagur, janúar 08, 2009

2009 ? Hvað ber það í skauti sér.....Það er svo skrítið þetta nýbyrjaða ár eins og óraunveruleikamynd.
eins og það sé ekki búið að gefa nein stefnuljós.

Eða bara hazardinn á og keyrt með bensínið í botni í hálku og bremsað svo maður veit ekki hvar farartækið lendir, fer í allar áttir, Yfir blómagarða fólks gegn um grindverk og inn um húsveggi, út hinumegin endar svo á hvolfi og fer nokkrar veltur.

Bíllinn minn er snarbilaður greyið. ííííhaaaa.
og þá meina ég bilaður.... það er farin lega í afturhjólinu... fjandans til...( þau eru reyndar tvö) afturhjólin... annað þeirra á ekkert annað eftir en að detta af. það er hægramegin ef ég skyldi gleyma því. Og ný lega er óheyrilega dýr. Rándýr. Viðbjóður skrattans.. hehe það eyðist ekki bensín á meðan.