Ásdís galdranorn Jónsdóttir

Ekki er öll vitleysan eins!

laugardagur, október 29, 2005

Í bloggi dagsins verður ekkert framkvæmdaröflskjaftæði.
Í gær fór ég og sótti trefilinn minn sem ég gleymdi í afmælinu hjá Láru skvísu.
Svo skall á fundur hjá frímerkjaklúbbnum 2/3 félaga, reglulega notalegt og tímabært og þarf að glæða fundarhöld þegar líður að jólum og sinna málefninu.
Í dag var hið þokkalegasta veður dulítil snjókoma, ég fór eftir hádegið heim á búgarðinn, þar voru Jón, Ester, Sigfús og Jón Valur mætt og Nonni ,Svana og Agnes líka. það var brytjað hakkað vigtað og hangsað og verður ekkert sundurliðað hér hver gerði hvað en lesendur sem þekkja familíuna geta nú sjálfsagt getið sér þess til. Mér virðist að matarvinnslu sé nú að mestu lokið í haust og komið að því að sinna jólaundirbúningi kveikja á seríum o.s.frv.

fimmtudagur, október 27, 2005

Í allan gærdag voru einhverjar stórframkvæmdir í gangi, röð vörubíla að keyra efni inn á völlinn fyrir ofan sundlaug. og allir að drepast úr forvitni...hvað á nú að fara að gera???? haldiði ekki að allir yrðu obboðslega glaðir að fá fréttir af nýjum framkvæmdum.
Og Smári minn Vals, fyrir alla muni haltu áfram að koma skoðunum þínum á framfæri þær lýsa bara umhyggju fyrir staðnum þar sem þú fæddist og ólst upp.
Þetta með brottflutta, þeir verða nú samt að koma auga á það sem er gert, þó hitt sem ekki er gert standi hærra. Það þarf allavega að laga. Og atvinnumálin...Hvar er atvinnumálanefndin.
Er hún kannske líka Leynifélag?? Þetta hljómar nú eins og ég hafi verið að lesa bækur Enid Blyton.
Góðan og blessaðan daginn ! ég var að lesa athugasemdir hjá Adda sem er á strandaspjallinu undir aðsendar greinar, þetta er nú ekkert grín með upplýsingaflæði til fólksins hér það er Strandavefurinn.is. Sem á heiður skilinn. Blaðið hætt að koma út sem Stína hefði svo sannarlega átt að fá menningarverðlaun fyrir. Hólmavíkurhreppur er eins og einhvert leynifélag. Engir notalegir íbúafundir hvað er að?

mánudagur, október 24, 2005

Jamm nú eru konur búnar að skemmta sér konunglega á kvennafrídaginn 58 konur taldi ég í göngunni stórar og smáar. hópurinn var vigtaður á bryggjuvigtinni hjá vigtarskúrnum og reyndust þær vera 3,8 tonn og vantaði þó nokkrar. það var labbað inn á Kópnes og út að sundlaug og þar fór fullt af konum í sund og heita pottinn. Mér tókst að toppa með því að leggjast í snjóinn og gera engil hehe.
Svo var farið á Café Riis og þar beið okkar alveg æðislegt góðgæti að vali.. mmmm brauð og krabbasalat og rækjur og brauð og skinka og vöfflur og rjómi og heitt súkkulaði.
Við sungum líka nokkur lög og ég spilaði undir eins og langömmur einar geta.

Konur i stu?i gladar og hressar a kvennafridaginn

sunnudagur, október 23, 2005

Já nú hangi ég i tölvunni mér til gamans, og las m.a. Strandaspjall Nonna H. Alveg er ég sammála honum um að það er alveg furðulegt að hreppsvefurinn skuli ekki vera uppfærður, það er alveg ótækt og til skammar. Fólk er hissa á þessu og tautar hver í sínu horni.
það ætti ekki að vera mikið mál að meika þetta, með Sigga Marra sem er þar að auki starfsmaður hjá hreppnum og er tölvuséný staðarins.
En ég er ekki á sama máli og Smári og fleiri að það hafi ekkert verið framkvæmt hér. það þýðir ekkert að koma hér öðru hvoru og sjá ekkert. heldur fara reglulega um með stækkunarglerið. En skýringin á þessu er líklegast sú að það sem þarfnast bráðra aðgerða eins og t.d. haugarnir blasa svo skelfilega við augum og það þarf svo sannarlega ekkert stækkunargler á þá.
Þeir sem hafa verið ötulastir hér við að skapa atvinnu njóta því miður ekki því sannmælis sem þeir eiga skilið og mér er afar minnisstætt að þegar Kotbýli Kuklarans í Bjarnarfirði, sem er annar áfangi Galdrasýningar á Ströndum...var opnað í sumar með flottri athöfn í sól og sumaryl þá MÆTTI EKKI EINN EINASTI HREPPSNEFNDARMAÐUR ÚR STRANDASÝSLU til að sýna framtaki þessu virðingu. Sveitarstjórinn á Reykhólum kom og Einar Guðfinnsson opnaði húsið. opnunardagurinn var auglýstur löngu áður svo ekki var það til afsökunar um að mæta ekki.
Galdrasýningin hefur dregið að fjölda ferðamanna í sumar og enn nú í endaðan október eru að koma hópar fólks, skólar og seinast í gær kom á safnið félagar í kór Hjallakirkju sem söng fyrir okkur í kirkjunni
Það fólk sem þar mætti hafði góða skemmtun. Samt til að vera leiðinleg fannst mér að frumkvöðlar stórkórs Norðurljósa hér á staðnum þyrftu endilega að sýna áhuga með því að mæta á svona söng í kirkjunni. Kirkjukórinn mætti hinsvegar vel og sómasamlega.
Café riis eigendur standa sig vel í allskyns uppákomum til gamans fólki og veitir ekki af á þessum árstíma. Og nú er sauðfjársetrið með í uppsiglingu Bændahátíð á næsta laugardag í Sævangi. þar verður snætt lambakjöt að hætti þeirra sauðfjárbænda sem heyra brátt sögunni til. Ekki skal um það deila að það er besta lambakjötið og allskyns gúmmúlaði með því......
Hér á dögunum hitti ég Sævar Ben. sem er lítt hrifinn af starfsemi þeirri sem nefnist upplýsingamiðstöð Hólmavíkurhrepps og hefur staðið vel í stykkinu og hlotið lof fyrir góða frammistöðu. hann taldi að þessu ætti að henda út eins og hann orðaði það og Hreppurinn hefði alls ekki efni á að henda peningum í þetta og fannst mér votta fyrir einhverskonar öfundsýkistón í hans rausi, hann lét í ljós þá skoðun sína að það ætti að nota húsið eins og hann orðaði það ,en nefndi nú ekki til hvers. Einnig var hann fullur af úlfúð út í Handverksfélag Strandakúnstar, og taldi að það hefði verið farið illa með hann þegar hann seldi harðfiskinn sinn hjá því. Púff. Hví þá? nóg um það.
en Upplýsingamiðstöð og netkaffi er atvinnuskapandi og sannarlega þörf fyrir ferðamenninguna og alla kynningu á Ströndunum. það er gott fyrir unga fólkið sem þar vinnur og er með tungumálin á hreinu og segir ekki bara "veidðaekki" ef spurt er um allt sem tilheyrir ferðamennsku.
Sundlaugin og íþróttahúsið og frábært tjaldsvæðið og umhvefi Galdrasafnsins er talandi dæmi um framkvæmdir. Og svo kemur fólk og segir það er aldrei neitt gert hérna...Þvílíkt helvítis neikvæðnis og öfundarraus. En aldrei má slaka á og festast í einhverju fari. Sem betur fer er líka ríkjandi bjartsýni og víðsýni þar sem fólk hugsar um meira en að horfa niður í klofið á sér og klóra sér í rassgatinu.

fimmtudagur, október 13, 2005


sofdu sofdu godi

flotty

as

Best ad lata skottu sofa

miðvikudagur, október 12, 2005

Helgin síðasta var góð takk Hildur mín fyrir commentin þín . þú ert perla. og þið öll takk fyrir komuna. Það verður nú fjör ef þið komið líka á næstu helgi. ég hef ekkert bloggað síðan og þessi vika er að verða buin líka...Stundum kemur að því að ég vildi geta stöðvað tímann, en hann flýgur frá manni og er snöggur að. Það er svo kalt hérna á skrifstofunni minni að fingurnir á mér stirðna ég þarf að gea mér grifflur. ég er að verða einhver helvítis kuldakreista
Það stafar sennilega af ónógri hreyfingu. Ég svaf nefnilega áðan eins og rotaður selur yfir bráðavaktinni sem ég ætlaði þó að horfa á . Þá verður manni svo kalt. Sofa yfir sjónvarpinu er með því versta sem ég geri, þó það sé ekki alltaf skemmtilegt efnið í því. nú hef ég það á tilfinningunni að einmitt þessi .þáttur hafi verið sérstaklega spennandi.
Við nafna fórum í Bjarnarfjörð í dag og ætluðum að hjálpa til við að leita að kattasporum með Viktoríu. Bleiki birtist nú um leið og Viktoría renndi í hlað. Og var þó oggulítið skömmustulegur. Halla búin að leita að honum út um allt.....Á leiðinni heim sátu þeir í aftuglugga bílsins báðir tveir, Blettur og Bleikur , ekki var ljóst hvað þeir voru að hugsa..
sennilega að láta sig dreyma um hrikalegar músaveiðar.

föstudagur, október 07, 2005

Hæ Hæ , hugsið ykkur hvað oft þarf lítið til að koma manni í rífandi gott skap, oft bara eitt blikk eða bros eða veif og maður svífur í loftinu, einnig smá hrós, flott músik eða bara fallegur himinn með fallegum skýjum.
Addi, Hildur ,Brynjar og Hanna Sigga eru komin norður og nú eru þau að sækja Tómas minn út í Tungusveit, Æðislegt að fá þau í heimsókn,
Í dag þvoði ég bílana mína, ég var reyndar alveg að drepast við þann seinni, og hann er ekki sérlega vel þveginn, en samt betri.
Það er alveg óhemju fallegt veður aaaalveg geggjað.
Nú er ég að fara að éta sviðalappir og svo er ég farin í megrun... forever. ég ætla að verða svona Hávaxin og grönn eins og við Anna Pálína segjum.
OOOOOOOOOOOAndsk, kosningin er á morgun Jess jess.
Kattar forsmánin er í stuði og er búin að hreiðra um sig í rúmum næturgestanna minna.

miðvikudagur, október 05, 2005

Mér finnst óþolandi að horfa á sjónvarpið allt kvöldið.. það er þó skárra ef það er eitthvað almennilegt í því. Nú er að byrja þáttur um það hvernig hægt er að drepast úr fuglaflensu. það er falleg ung kona á skjánum að hnoðast með eitthvert helvítis fuglskvikindi og útskýra hvernig flensuveiran virkar. Inn á milli koma svo myndir af fjölda af svarthærðum börnum með maska til að verjast flensunni. Konan sem er að útskýra þetta lítur reyndar út eins og gúmmídúkka sennilega er hún upptrekkt eins og stúlkurnar í "Jónsmessunæturmartröð á fjallinu helga" eftir Loft Guðmundsson, en það er sérlega áhugaverð bók sem allir ættu að lesa. Væri nú ekki hægt að hafa eitthvað skemmtilegra úr því maður neyðist til að horfa á sjónvarpið.... Útskýring á þessarri geðvonsku er sú að ég kom því ekki í verk að fara í sund í kvöld eins og ég ætlaði... Fjárans haugaletingi...

sunnudagur, október 02, 2005

Mér finnst gaman að syngja, Þegar ég var fjögurra ára lærði ég fullt af millröddum sem mamma söng í kantötukór Akureyrar..og það fyrsta sem ég man eftir mér þá mun ég hafa verið á öðru ári. það sem ég man er menúett eftir Boccerini sem var alltaf í morgunútvarpinu. Mamma trallaði með laginu og Lýður móðurbróðir var að brjóta niður vegg í bragganum sem við bjuggum í og það var grjóthrúga á gólfinu......Þetta var alveg áhyggjulaust hjá mér....
Seinna húkkuðu mamma og Jón Geirsson læknir mig og ég var bundin niður á bekk og teknir úr mér hálskirtlar. Það breyttist skilst mér einhver svaka rödd sem ég hafði haft áður. hún hvarf og það leið yfir mömmu sem horfði á hryðjuverkið....Ég er orðin hundgömul og hef samt gaman af að syngja, og nú um helgina upplifði ég að taka þátt í söngvarakeppni á Café Riis með fullt af bráðskemmtilegu fólki. Það var þrusu gaman...Ég söng fyrir Strandagaldur og var mjög ánægð með commentin sem ég fékk hjá yngstu kynslóðinni tveimur ungum mönnum annar sagði: Amma þú varst næstbest og hinn: Snúlla var best.... I am crazy....
Það er skrítið en í dag sagði kona sem ég hitti að það væru ekki svo margir dagar til jóla. Hvað á maður eiginlega að gera í þessu....Standa sig vel að vanda og hafa þetta að hefðbundnum sið...Mig langar að gera eitthvað alveg kolgeggjað og óhefðbundið á jólunum. Mér finnst það samt leiðinleg hugsun, ég myndi heldur vilja að ég vildi hafa þetta hefðbundið. Er það klikkun?
Hvað væri hægt að gera í þessu ...Hafa steikina öðruvísi kryddaða eða gefa andvirði hennar til góðgerðamála og hafa enga steik. Ég veit ekki neitt í minn haus.....Snúast jólin annars um að hafa steik og brúnaðar kartöflur. Þegar ég var lítil þá var best að fara út í glugga seint á jólakvöldið og reyna að sjá engla á stjörnubjörtum himni.