Ásdís galdranorn Jónsdóttir

Ekki er öll vitleysan eins!

miðvikudagur, desember 31, 2008

Árið 2008 er ennþá .(kl er tvö)...að enda eins vel og hægt er... Bílarnir orðnir fullir af rusli og allir nema Hrafnhildarfjölskylda að fara uppí Undraland og Steinó. Til þeirra fara svo allir í veislu annað kvöld. á nýju ári. Kirkjubólsfjölskyldan verður á Akureyri í kvöld og á Hólmavík með oss annað kvöld. Við æðum svo til þeirra í Kirkjuból á annan í nýju ári. Ruslabílalestin er að leggja íann Minn kaggi, Hönnu s og Bigga, Adda og Hildar, Svönu og Nonna og Jóns Gísla og Brynju og flestir litlir með 'Árdís og Eiki á Undralandi og tveir hundar sem eru að verða vinir.

Er ekki það sem kallast heimsendir eitthvað sem gerist fyrir hvern og einn persónulega, þ.e. heimsendir hvers og eins, Kannske Páll Skúlason geti svarað því á einhvern skynsamlegan máta.
þegar ég var lítil var ég alltaf voðalega hrædd um að kæmi heimsendir. Og þá dæu allir í einu.
Nú held ég að það deyi ekki neinn, nema gamla árið sem fer inn í minningabankann og er þar að eilífu, og annað kemur í staðinn,Takk fyrir gamla árið,og gleðilegt nýár.

mánudagur, desember 29, 2008

Góður dagur með þeim betri og ég er búin að koma heilmiklu í verk klára að taka allt af Galdrasafninu sem tilheyrir markaðnum og koma litlu hillunum okkar í góða geymslu. Síðan að taka törn í að koma fyrir dóti því sem fer til baka og skila nokkru. Fór og knúsaði litlu fjölskylduna hennar Gummóar minnar sem eru að fara suður og svo út, það hefði nú verið gaman að hafa þau lengur en um það er ekki að fást, gaman að fá að hitta þau, og við sjáumst í sumar ,þó er ég eiginlega alveg viss um að ég geti ekki safnað mér fyrir fari til að heimsækja þau, allavega ekki nema aðra leiðina og þá sætu þau uppi með mig. Hildur og strákarnir og Pjakkur komu í kaffi og Ásta, og svo eru Eiríkur Árdís og tíkarskarnið á leiðinni. HannaSigga og Biggi koma svo á morgun ég er að fara að elda kjúklingafætur.

miðvikudagur, desember 24, 2008

Nú er kominn aðfangadagur ,það væri synd að segja að hann sé bjartur og fagur, svartamyrkur og rigning og hvasst, einhvern tíman hefði mér þótt þetta gott þegar allt var á kafi í snjó heima í Steinó og ófært og allt og eina vonin um miðjan vetur vart að það kæmi hláka, Það var líka hláka og rok á aðfangadag þegar sló niður í eldavélina og sótið fór út um allt, og líka þegar áin ruddi sig og jakarnir þeyttust hátt í loft upp það var stórkostlegt að horfa á það en agalegt samt.
Ég óska öllum sem lesa bloggið mitt innilega gleðilegra jóla og sérstaklega þér Birna sem sendir mér alltaf góðar og fallegar kveðjur, og HannaSigga mín óska ykkur líka góðs nýjárs og margra góðra ára.

þriðjudagur, desember 23, 2008

Þorláksmessa 2008...mér finnst eins og það sé ekki nema einn dagur síðan var aðfangadagur´2007. Það er stormur... enginn fellibylur...bara hvasst úti og dimmt.

mánudagur, desember 22, 2008

Ég hitti litla manneskju í gær og hana hef ég ekki hitt fyrr af því hún á heima úti í Danmörku hana Arndísi Írenu hún kom líka með foreldrum sínum á markaðinn í dag það er gott að hitta svona smáfólk og fá að knúsast soldið með það. Ég fór líka til Adda og Hildar í gær að hitta herra Egil hann er líka í þessum flokki, Brynjar er mjög stoltur af honum.
ég held að ég sé að komast í einhverskonar jóla frí og geri nú kannske bara eitthvað sem mér dettur í hug hverju sinni. allavega er ég búin að kortastressast nærri því eins og ég ætla. mér finnst það ekki leiðinlegt síður en svo að skrifa á kort en afar stressandi af því það er ekkert í röð og reglu hjá mér.
Og núna er ég að fara að taka til í eldhúsinu ,er búin að setja forljótar jólagardínur sem ég ætla að taka strax niður aftur (Lukka)...svo er ég nýbúin að fá mér jólakaffi sem á að halda mér vakandi fram á nótt. Og svo er ég að hlusta á Bubba Mortens. hann er alltaf alveg ótrúlega flottur....ein setning...úr einu ljóði Bubba

"og það er vont að vera týndur
í veröld sem að engar hefur dyr"

þessi setning söng í hausnum á mér þegar ég vaknaði í morgun , svo ég fór og gróf upp Bubbadisk sem ég á það er samt ekki á honum lagið sem þetta er í.

Á morgun þarf ég að fara í bókasafnið,
Versla mér kál sem á að endast þangað til á laugardag,
Taka soldið til.
og opna markaðinn.
Og fara á tónleika Bjarna á Riis.
Þetta virðist vera upphaf að skipulagi....

Það er markaður frá tvö á morgun og til fjögur og svo er það búið þetta herjans árið.

sunnudagur, desember 21, 2008

Það getur stundum verið svo óskaplega erfitt að einbeita sér að því að sjá góðu hliðarnar á tilverunni, þá þarf maður að lyfta munnvikunum það heitir bros... ogtaka dansspor með jólaseríu sem er biluð og var ekkert lífsspursmál að setja upp en maður ætlaði samt að gera það án þess að þurfa að taka hana niður aftur og laga hana. Smáatriði.... svo rekst maður á spegil og sér sitt kasúldna fés ..rekur út úr sér tunguna framan í þetta óféti og ullar á það , bölvar pínulítið og fer svo að gera eitthvað... td er ágætt að standa úti í garði þangað til manni er orðið svo kalt að það er gott að koma inn í hlýjuna , þá er það bleksterkt kaffi og svo er maður klár í slaginn,,,Daginn...það er sunnudagur...ég held samt að ég fari beint í kaffið núna.... hef ekki orku til að standa úti í garði.

laugardagur, desember 20, 2008

Nú eru litlu jólin hjá skólanum búin þau voru í gær og gaman Hljómsveitin Grunntónn í stuði og þeir sem voru hressir í fyrradag voru veikir í gær. það er nú reyndar árlegur viðburður. Söngkonur eiga það til að fá skyndilega hæsi eða aðra slæmsku. en píanóleikarinn hefur aldrei klikkað fyrr en núna, Viðar veikur og Stebbi Jóns kom til bjargar á síðustu stundu og það klikkaði sko ekki. Lára og Barbara sungu af hjartans list, og Grýla fékk að lána röddina sína sem passar vel við flutningsaðilann með harmonikkuna. Inga erkomin í heimsklassa á trommunum, Kristján var allt í einu kominn með gítar sem Jimi Hendriks hefði getað verið hreykinn af. og Bjarni á bassagítarnum hljómsveitarstjóri sá um að ekkert væri verið að hangsa og kjafta milli laga. bara keyra á fullsving svo börnin og foreldrar afar og ömmur voru lafmóð kring um tréð að syngja Göngum við í kringum. og þessi lög sem eru svo skemmtileg af því að þau eru svo obboðslega margar vísur. það voru bara bros á mannskapnum í öllum hornum og svo kom hópur af jólasveinum og dönsuðu með og gáfu öllum mandarínur. þetta er allt að koma..Jón var fyrir mig á markaðnum á meðan, og hann hefur aldeilis laðað að sér viðskiptavini því búðin var næstum tóm þegar ég kom niðureftir aftur. Ég held ég fái hann til að vera aftur í dag.
það hefur sáldrað niður snjó og allt er kyrrt og hljótt úti og falleg ljós um allt og ískalt.
Það er eins og allir vilja hafa það. Ég er búin að baka kleinur sem verða úti á markaði í dag.

fimmtudagur, desember 18, 2008

Ég er að klikkast!!!!! og var þó slæm fyrir....verð örugglega flutt suður á Klepp í spennitreyju á aðfangadag af því það yrði svo mikið drama einmitt á aðfangadag...aaarrrg það gengur ekkert sem ég er að gera...finn ekki neitt sem ég er að leita að og það er allt í drasli og ég sit í miðri hrúgunni eins og Anna á Hesteyri...nema hér eru engar mýs....Bíllinn bensínlaus og annað eftir því..

þriðjudagur, desember 16, 2008Þetta er tekið á jólamarkaði Handverksfélagsins Strandakúnst í Strandasýslu og er á Galdrasafninu á Hólmavík og opið frá tvö til fjögur virka daga og tvö til sex laugardaga og sunnudaga. Jón Gísli Jónsson hagleiksmaður hinn mesti smíðaði borðin sem ég stend við í miðjunni stendur "ósýnilegi drengurinn í glerbúrinu sínu og heldur á steingervingi.
Ég var að hlusta á myndbandið sem Árdís setti inn á facebook, með James Alan að syngja "The unforgiven" Þetta er alltaf svooo æðislega flott að maður gæti hreinlega dáið..það er ekki spurning að við jarðarförina mína vil ég láta spila þetta og á fullum styrk, í góðum græjum. Og "Nothing else matters" Það á að virka eins og sprengja svo jarðarfarargestir þeytist upp úr sætunum...Sumir verða með hneykslunarglott aðrir alsælir og enn aðrir sem kunna að meta "Djeims" huxa kannske eitthvað fallegt.
Svo væri fínt að fá Grunntón til að spila jólalög í erfisdrykkjunni...Ljósadýrð loftin fyllir með Bjarna.

mánudagur, desember 15, 2008

Já já ég brenndi mig á kaffikönnunni í góminn á vinstri þumalputtanum...
Hún var eiginlega búin að sjóða allt kaffið niður þegar ég tók eftir því að ég var að búa til kaffi. Þessi kanna kann sér engin takmörk..Ég sat og var að lesa svo merkilega sjálfshjálparbók sem heitir "Skyndibitar fyrir sálina " og spekúlera í að ég gæti kannske orðið pínulítið skynsöm því það stendur í þessarri bók að þannig geti allir orðið.... EN....Ég er alls ekki viss... EKKI 'EG...fyrir það fyrsta fylltist ég andspyrnuhugsunum við lesturinn. sennilega ekki nógu skýr til að meðtaka fræðin, nú nú.. maður sér svosem hvað þetta er æskilegt...Jákvæðni leiðir af sér jákvæðni...Sleppa því að vera áhyggju full..ur... Aldrei að kvarta yfir neinu....Mistökin sem maður gerir eru ekki aftur tekin... hugsa fallega um allan fjandann...fyrirgefa öllum...maður sjálfur þar með talinn... ekki vera reið..ur...Tala við sjálfan sig fyrir framan spegil oft á dag og segja að maður sé eins og maður vill vera...semsagt ágætis grey jákvætt og skemmtilegt og eða þannig... Þetta er annars allt rétt.... það er gott veður í dag hér í Brekkubæ þar sem Hobbitarnir búa.

sunnudagur, desember 14, 2008

Það er nú að verða minni og minni tími til að blogga einhvernvegin hefur mér tekist að hafa svo mikið að gera í desember að hann hefur ekki verið eins leiðinlegur og ég var búin að ímynda mér. veðrið er gott og ég kláraði verkefni í gær sem hefur valdið mér ærnum áhyggjum. Best að hafa yfirdrifið að gera. nú fer ég að baka kleinur. Vaaá hvað haldið þið að litli góði einmanalegi Pjakkur hafi verið búinn að gera þegar ég hitti hann í morgun. hann hafði brytjað niður hálfa töfflu og skammaðist sín svo hræðilega þegar ég kom og sagði svei og sýndi honum töffluna, svo lét ég hann hafa gúmmíbeinið sitt að tönnlast á. Skinnið. Það verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir þegar hann hittir Kráku sem Eiríkur og Árdís eru með. hún er algjörlega ólík honum.

laugardagur, desember 13, 2008

Tunglið var fullt í gærkvöldi og mjög skrítið, ég held það sé fullt enn í dag. það var rosarosabaugur kring um það í gær.Ég hef alveg sérstakt uppáhald á tunglinu " Máninn hátt á himni skín " er uppáhaldslagið mitt o.s.frv. og Góða tungl og stóð ég úti í tunglsljósi.
Og kvæðið hans Megasar ":
stóð ég úti í tunglsljósi..
ég stóð víst út við skóg...
af stólum var þar mikið...
en af fólki ekki nóg..
Ég spurði álfakónginn
hvað þetta ætti að þíða?
EN það þýdd'ekki að tala við hann,
því hann var dottinn íða.

föstudagur, desember 12, 2008

Nú er slydda í þokkabót og klessist og mígur niður rúðurnar.
Brynjar Freyr hringdi í dag : Amma ég ætla að bjóða þér á tónleika.!!! ég á að spila á trommu. Amma skellti sér náttúrlega á tónleikana og þarna stóð gaurinn og spilaði takta á sneriltrommu í fyrsta skipti að koma fram á tónleikum. Egill litlibróðir kom líka á tónleikana og ég fékk að sitja með hann .Hann svaf nú bara og vaknaði ekki fyrr en rafmagnið fór og allir sungu jólalög en orkubúsmenn ruku út og svo kom rafmagnið aftur eftir dágóða skemmtilega stund og þá var hægt að ljúka tónleikunum.
Ásdís nafna spilaði líka af krafti á flygilinn ,ég var svo hreykin af henni.
Núna er albrjálað veður og ekki laust við að ég sé skelkuð ég hef oft séð sjóinn æða yfir bryggjuna en aldrei svona hátt eins og núna og þegar maður býr í svona gömlu húsi sem þakið er kannske farið að losna á þá er það soldið ískyggilegt. það er líka einhver fjárinn að skellast í garðinum og bíllinn minn vaggar til og frá. ég er ekkert að fara að sofa strax , það er ennþá rafmagn en það hlýtur að fara aftur ef veðrið fer ekki að lægja.

fimmtudagur, desember 11, 2008

Já nú er ég í betra stuði en í gær, búin að lesa tvær ágætisbækur "Sá einhverfi" og seinþroskasögu Þráins Bertelssonar. Ennfremur er ég langt komin með lítið verkefni
sem ég tók að mér að gera og það var nú mesta baslið að koma sér að því að byrja á því. en það er nú í góðum gír. Jólatónleikar skólans voru í gær og aldeilis frábærir, þetta eru hreinir snillingar þessir tónlistarkennarar sem við höfum hér. Og nemendurnir eru heldur betur að standa sig. Öll framkoma þeirra til fyrirmyndar. og ekki spillti að pínulítil skotta hreifst svo með músikinni að hún dansaði af hjartans list og klappaði. Og hoppaði um. Svo þegar hún var farin að reyna að laumast upp að altarinu og komast á bak við hljómsveitina systur hennar til skelfingar. þá skarst fullorðna fólkið í leikinn og fór með hana heim . Ekkert má nú fyrir þessu fullorðna fólki. ojamm ojá.
Næst á döfinni er þetta hefðbundna morgunexpressoblek sem bætir og kætir.

miðvikudagur, desember 10, 2008

Djöfull er ég fúl þegar verið er að gefa mér eitthvað sem ég ekki á... eins og nú er Nonni á berginu að kalla mig fjöllistakonu, skrambans kallinn ég ætla að skamma hann, ég er fremur fúskari en ágætis fúskari samt að eigin mati, fúskkellíng væri nær lagi því ekki hefur mér tekist að nenna því í lífinu að læra neitt af viti, nema heilbrigðis og vöðva og beinagrindarfræði með því að vera í Nuddskóla Guðmundar, meðan hann var og hét, ég hef reyndar alltaf verið spennt fyrir svona heilbrigðistengdum greinum, og hefði efalaust farið í í gamla daga að læra meira um það, En forlögin skelltu mér í annað verkefni sem ég reyndar fúskaði ekki við.
Ojá eins og gamla fólkið sagði í gamla daga ojamm ojá.
Það má þó alltaf lesa um það sem maður hefur áhuga á.Ég hef nú verið að lesa dálítið af nýútkomnum bókum undanfarið, Sumar eru þrælgóðar en aðrar eru að mér finnst afskaplega litaðar af dapurleika og armæðu og á ég þá við skáldsögurnar. Ég þrælaðist gegn um eina stóra og mikla bók sem hafði að geyma lífssögu fólks sem var ekkert nema röð af mistökum og afleiðingum þeirra, semsagt alveg hundfúlt og maður fer frá slíkum lestri alveg eins..hundfúll.. Ævisögurnar eru betri það eru þó ljósir punktar innan um og saman við og oft eitthvað fyndið og skemmtilegt.
Allt er morandi í glæpasögum misgóðum en bókin hans Arnaldar er bráðspennandi, líka "Ofsi" eftir Einar Kárason, en hún er jafnframt sannsöguleg og sorgleg. Mest spennandi finnst mér Bókin "Sjöundi sonur" eftir Árna þórarinsson" Hana leggur maður ekki svo glatt frá sér fyrr en hún er búin, Ég las eina litla bók í gær sem ég hélt að væri svo mannbætandi og fín en hún reyndist vera svo full af því að lífið sé tilgangslaust og dapurlegt að ég held ég verði að fá áfallahjálp. Ég er líka búin að lesa Útkall um gosið á Heimaey Hún er góð og fróðleg og vel skrifuð, rosalega hefur þetta verið agalegt, og hryllilegt. Og þarna kom upp hjálpsemi þjóðarinnar allsstaðar. Því miður er því ekki til að dreifa allsstaðar, ég las frásögn konu sem hélt að það væri ráð að leita til ráðamanna þjóðarinnar í dag til hjálpar með langveik börn og talaði við Ingibjörgu Sólrúnu, sem setti upp sinn kaldasta svip um leið og hún neitaði að hjálpa konunni og frysti hana úti. Þetta er bara eins og í eldgamla daga með embættismennina og þá sem minna máttu sín. Sérstaklega konur sem áttu í fá hús að venda. þá fengu þær kannske húsaskjól ef sýslumennirnir og prestarnir fengu að ríða þeim í staðinn, Og svo voru börnin þeirra tekin af þeim og konurnar dæmdar. aaaaarrrrrrggggh. og svo eru að koma jól...

föstudagur, desember 05, 2008

Það er verið að predika góðsemi og jólaskreytingar, elskið náungann og hlakkið til jólanna, Ég var að lesa lífssögu konu sem mætti hrikalegu mótlæti í lífinu. Það er svo merkilegt hvað lagt er á sumt fólk og það kemur hnarreist og lífsreynt og færara um að skilja aðra út úr öllum sársaukanum, er gefandi og viðmótsgott, þó er það áreiðanlega erfitt oftar en ekki. Lífsreynslan yfir gefur það þó ekki heldur geymist í huganum. Þegar ég var á Húsmæðraskólanum á Löngumýri var þar dönsk ung kona sem hafði misst manninn sinn og var þar undir verndarvæng Ingibjargar skólastýru. Mér er þessi kona svo minnisstæð vegna þess að hún var alltaf svo einstaklega góð við mig sem var bara fimmtán ára stelpuskjáta og áreiðanlega ekki skilningsrík á nokkurn máta. Ég skildi ekki dönskuna hennar en hún bauð mér alltaf góðan daginn sagði sæl Ásdís og brosti alltaf svo fallega samt skynjaði ég sársaukann í augunum hennar og gleymi henni ekki. Önnur kona íslensk var þar sem var að flýja manninn sinn sem var grískur og hafði talið sér skylt að beita húsbóndavaldi sínu á þann hátt að berja hana í klessu. þetta var mér óskiljanlegt þetta var svo indæl kona. Við fórum skólastelpur á Sæluviku og æfðum söng sem við fluttum þar á skemmtun. Það var allt mjög gaman þar til sá gríski birtist náði til konunnar og réðist á hana. Það voru mjög reiðar ungar stúlkur sem reyndu að aftra því en ég held að það hafi nú samt verið lögreglan sem batt enda á það. Það er margt sem er minnistætt en þetta var það sorglega.

mánudagur, desember 01, 2008

Já fiskarnir dafna vel, froskarnir líka, þeir eru alltaf að geraða, hökkuðu í sig sinn orminn hver í dag, Kisa er í fýlu og vinsar úr matnum sínum, skilur brúnu einlitu kögglana eftir, Strumpur er feginn að vera laus úr prísundinni sem hann var í og hámaði í sig slatta af sinu í gær og fyrradag.
Ég er búin að vera að festa upp ljós og ýmislegt annað fyrir markaðinn.