Ásdís galdranorn Jónsdóttir

Ekki er öll vitleysan eins!

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Æ fleiri Íslendingar hafa tekið upp þann sið að gera sér dagamun á Valentínusardeginum 14. febrúar. Þessi dagur elskenda skipar stóran sess í hugum fólks víða í Evrópu og Norður-Ameríku og á sér langa sögu sem nær allt aftur til tíma Rómarveldis.
Uppruni ValentínusardagsinsHinn 15. febrúar ár hvert héldu Rómverjar til forna vorveislur til heiðurs guðinum Lupercus, en hann var verndari búfénaðar og uppskeru. Kvöldið fyrir hátíðina settu ungar stúlkur nöfn sín í leirskál. Ungir menn drógu síðan miða með nöfnum þeirra úr skálinni og völdu sér þannig félaga á hátíðina. Sagan segir að oft hafi fólk ekki þurft að taka þátt í þessum leik nema einu sinni til að finna sér maka.
Hinn 14. febrúar um árið 270 lét rómverski keisarinn Kládíus II hálshöggva prestinn Valentínus. Prestinum var gefið að sök að hafa á laun gefið saman fólk sem var óheimilt að ganga í hjónaband en keisarinn stóð í þeirri meiningu að einhleypir menn án fjölskyldutengsla myndu styrkja her hans. Í kjölfar aftökunnar hlaut Valentínus sess sem verndari elskenda.
Eftir að kristni var gerð að ríkistrú í Rómarveldi var vorhátíðin Lupercalia haldin í nafni Valentínusar.
Þjóðsögur tengdar Valentínusardeginum
Á miðöldum trúðu Evrópubúar því að fuglar veldu sér maka 14. febrúar ár hvert. Þjóðsagan segir mannfólkið hafa tekið þann sið upp eftir fuglunum.
Önnur þjóðsaga frá Bretlandseyjum hermir að sjái kona glóbrysting fljúga yfir á Valentínusardaginn muni hún giftast sæfara. Sjái hún spörva fljúga yfir muni hún giftast fátækum manni og verða hamingjusöm og sjái hún þistilfinku muni hún giftast ríkum manni.
Hefðir tengdar Valentínusardeginum
Á miðöldum var algengt að börn á Englandi klæddust fötum fullorðinna á Valentínusardag, gengju í hús og syngju fyrir fólk.
Í Wales þróaðist sú hefð að menn færðu heitmeyjum sínum útskornar skeiðar með myndum af hjörtum, lyklum og skráargötum á þessum degi.
Í dag skiptast elskendur í Evrópu og Norður-Ameríku á gjöfum á Valentínusardaginn. Þá er algengt að elskendur semji ástarljóð í tilefni dagsins en til eru Valentínusarljóð frá 15. öld.
Blómasendingar hafa tengst Valentínusardeginum frá því á 17. öld en þá segir sagan að dóttir Hinriks IV Frakklandskonungs hafi boðið til veislu í tilefni dagsins þar sem allar konur skörtuðu blómum frá herrum sínum.
Í Evrópu og Norður-Ameríku eru blóm og hjartalaga sælgæti seld í miklu magni á Valentínusardaginn en árið 1998 nam sælgætissala í tengslum við daginn í Bandaríkjunum einum milljarði dollara (andvirði tæplega 85 milljarða íslenskra króna).

1 Comments:

  • At 11:29 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Jáhá einhvern veginn höfða þessir dagar ekki til mín,mér finnst bara að til dæmis ég, geri eitthvað sem mig langar til þessa stundina en ekkert eftir dagatalinu að dæma:) knús til þín mamma.þín hanna sigga

     

Skrifa ummæli

<< Home