Ásdís galdranorn Jónsdóttir

Ekki er öll vitleysan eins!

mánudagur, júlí 21, 2008

Nú hefur verið svo margt að gera að ekki er einu sinni tími til að blogga, svona geta sumrin farið með mann, Nú er Hanna Sigga mín farin suður aftur og er búin að vera í sumarfríi hérna hjá mér og hún hefur verið að hjálpa mér heldur betur, málaði kerruhjól og húsgafla heila tvo daga og tók húsið í gegn inni svo nú er hreingerningailmur í hverju skoti og aldeilis hægt að sleikja gólfin ef manni dytti það í hug. 'Eg er búin að vinna slatta í húsasmiðjunni,sem Hanna Sigga kallar "KOFA" hafið þið heyrt annað eins,svei svei, og ekki nóg með það heldur finnst henni það fyndið,,,,oh... Ofan á sagarbygginguna er komið þak úr járnplötum svo nú má gera úrhellisrigningu fyrir mér ...plastþakið sem við Svanhildur strekktum svo vísindalega þarna yfir rifnaði bara í roki, ojá ojamm....Búin að reyta tonn af grasi úr blómabeðinu og fullt eftir samt. Það er jú sprettutíð. Í öllum eða þannig frístundum baka ég síðan kleinur sem étast eins og heitar lummur.
Núna um helgina var Bryggjuhátíð og ég fór út á Drangsnes í gær og borðaði grillaðan sel og marineraðan lunda. Og keypti selspik í krukku, harðfisk og hákarl, og keypti svo bókina "Ljóðaperlur úr Kaldrananeshreppi" sem bryggjuhátíðarnefnd hefur gefið út, Flott bók, flott framtak.
það var steikjandi sólskin og hiti og ég rápaði um megnið af deginum og skoðaði allt sem var um að vera.
Fór svo í Bjarnarfjörðinn yfir að Svanshóli og Laugarhóli og horfði á hin stórkostlegustu kraftaverk unnin, Þar var glímt við málmsmíði m.a. og risastór bautasteinn reistur upp við sundlaugina til minningar um stofnendur sundfélagsins Grettis og þá sem byggðu sundlaugina. Á steininn var svo festur áletraður málmskjöldur, og við athöfn í dag var steinninn afhjúpaður og stofnað hollvinafélag sundlaugarinnar.
Síðan var efnt til hátíðakvöldverðar úti í góða veðrinu að hætti Svanshólsbúa og gesta þeirra, spjallað og sungið frameftir kvöldi, afar notalegt, það var alveg heiðskírt og fullt tunglið skaust upp á næturhimininn, nokkru eftir að sólin var sest.
Þegar ég svo kom heim á Hólmavík var þar ekki nokkur sál á kreiki, sama blankalognið, allt ungviðið á balli á Drangsnesi með tjöld og annað sem tilheyrir útihátíð. Á svona kvöldum finnst mér eiginlega ekki tilheyra að fara að sofa en gerði það nú samt.
Fyrir utan allt annað var þetta afar merkilegur dagur í lífi mínu því ég náði ákveðnum langþráðum áfanga sem ég byrjaði að vinna að á afmælinu hans Jóns Gísla míns þann 19. maí. og hef reyndar verið að baksa við í 30 ár án verulegs árangurs, eða síðan Árdís mín fæddist.
Það er ekki alltaf af hinu góða að "fara yfir strikið" en það gerði ég nú akkúrat núna þennan 19, júlí 2008 og það á mjög svo jákvæðan máta og er ofboðslega hamingjusöm kona yfir því.
Sævangur í dag með kaffi hlaðborð og kraftakeppni sem Svanhildur stjórnaði með prýði. og var gaman að. ég tók þar skemmtilegar myndir sem og í gær.
Það var soldið skrítið að hafa ekki þarna strákana mína , en þeir eru í formúluferð úti í Hockenheim í Þýskalandi, þetta var vinningsferð í formúluleik, með Jón Gísla fyrir liðsstjóra, og Arnar, Jón, Jón Gísli, Arnór og Árdís mitt fólk, ásamt fleira fólki héðan. það má sjá að Siggi Atla náði sambandi við Jón og er það á Strandir.is.
Farin er ég svo að sofa, en verð á Sauðfjársetrinu að vinna á morgun og rifja upp gamla takta og fóðra heimaalninga.
Og svo Góða nótt.

2 Comments:

  • At 8:45 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    skúraði eldhúsgólfið í dag og allir spurðu hvað stæði til ???'Jú ég átti von á gestum....ehehehehe...Allir gerðu bara grín að mér. Bæ Halla.

     
  • At 5:52 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    hmmmfff....Það er svona að vera að skúra þetta í góða veðrinu....
    si you soon.
    gamla á Höfdagötan

     

Skrifa ummæli

<< Home