Ásdís galdranorn Jónsdóttir

Ekki er öll vitleysan eins!

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Það er gott veður..andlausasta setning sem til er.. Það er margt um að vera á Hólmavík. fyrst var karókíkeppnin það tók heila viku í undirbúning. Svo var matvinnsla sem ég sniglaðist í kring um og gerði ekki neitt , nú það eru föndurdagar á þriðjudögum þar sem ég geri heldur ekki neitt. Ég er að snuddast um með undirskriftasöfnun- Við viljum fá vegrið út með Kollafirði á Ströndum norðanverðum. Það er til fólk hér á Ströndum sem spyr:", hvað er það ?!! von að það spyrji, þetta er samt til víða annarsstaðar á landinu og er til öryggis !!!!!
Það var þing um húmor hér í þróunarsetrinu og á Riis..Sumir vita ekki heldur hvað er húmor og halda að það sé einhver tegund af mat sem Bára býr til. En þetta var bráðskemmtilegt.
Síðan var Kolaport í félagsheimilinu. allir komu með kompudót og allskonar muni. Það var líka bráðskemmtilegt, Og mannfjöldinn ótrúlegur það var samt fullt af heilsugæsluliðinu héðan suður á landi í mat og djammi, Ég er handviss um að það var miklu skemmtilegra hér.
Ég reyndi að selja nýja gítarinn minn og Gogga, ég á ennþá gítarinn ,en Goggi flaug vestur í Djúp. ég seldi samt stóran kertastjaka fyrir sex sprittkerti, tvöfaldan disk með Bó Hall og peysu.
Ég er hrædd um að ég hafi móðgað Ása, en það var af ásettu ráði og í hefndarskyni, hann kom og sagði að það hlustaði enginn heilvita maður á gaulið í Bjögga. og það fauk í mig og svaraði að það væri þó betra en eitthvert helvítis harmonikkugaul. Ég get svosem sagt svona af því ég spila sjálf á áðurnefnt hljóðfæri.
Nú er allt hvítt úti og það er lítill bátur að koma að bryggju.
Í gær var svo dagur íslenskrar tungu og Ester var með uppistand í tilefni af því á bókasafninu, Addi leiklas frumsamda sögu fyrir börnin, og Jón las kvæðið Ferðalok og sagði frá skáldinu Jónasi. Það var fallegt.
í dag er föndurdagur og ég held áfram að gera ekki neitt.
Næsta sunnudag á að skíra lilla Snæberg þá verður glatt á hjalla hjá Hildi og Adda og strákunum og öllum sem þangað koma.

Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson
eitthvert fallegasta ástarljóð sem ort hefur verið.

Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský;
hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.

Veit ég hvar von öll
og veröld mín
glædd er guðs loga.
Hlekki brýt ég hugar
og heilum mér
fleygi faðm þinn í.

Sökkvi eg mér
og sé ég í sálu þér
og lífi þínu lifi;
andartak sérhvert,
sem ann þér guð,
finn ég í heitu hjarta.

Tíndum við á fjalli,
tvö vorum saman,
blóm í hárri hlíð;
knýtti ég kerfi
og í kjöltu þér
lagði ljúfar gjafir.

Hlóðstu mér að höfði
hringum ilmandi
bjartra blágrasa,
einn af öðrum,
og að öllu dáðist,
og greipst þá aftur af.

Hlógum við á heiði,
himinn glaðnaði
fagur á fjallabrún;
alls yndi
þótti mér ekki vera
utan voru lífi lifa.

Grétu þá í lautu
góðir blómálfar,
skilnað okkarn skildu;
dögg það við hugðum
og dropa kalda
kysstum úr krossgrasi.

Hélt ég þér á hesti
í hörðum straumi,
og fann til fullnustu,
blómknapp þann gæti
ég borið og varið
öll yfir æviskeið.

Greiddi ég þér lokka
við Galtará
vel og vandlega;
brosa blómvarir,
blika sjónstjörnur,
roðnar heitur hlýr.

Fjær er nú fagri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali;
ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið.

6 Comments:

  • At 3:08 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Það var kominn tími á smá lífsmark með þér Hefur verið gaman um helgina húmorinn minn er kolsvartur en góður á til að fá fólk til að grípa andann á lofti. kv Birna

     
  • At 11:03 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Það væri nú gaman að fá einn brandara frá þér Kv Snúlla

     
  • At 5:02 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    gaman að fólk skuli taka sig svona sama og halda svona kolaport, og gera ýmislegt, til að gera sér til gamans, ekki veitir af á þessum tíma árs og í raun og veru alveg sama hvaða árstími er, gott að það er til framtaksamt fólk á Hólmavík.kv Hanna Sigga.

     
  • At 6:06 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    ertu enn að selja gítarinn?

     
  • At 6:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Ertu enn að reyna að selja gítarinn þinn?

    kv Stebbi Rocky

     
  • At 11:28 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Já ég er að reyna það hann fer á 50 þúsund
    kv Gamla

     

Skrifa ummæli

<< Home